Endurskoðun stuðningskerfa í skógrækt og landgræðslu ? Ósk um ábendingar og tillögur
Málsnúmer202402142
MálsaðiliLand og skógur
Tengiliður
Sent til
SendandiGustav Magnús Ásbjörnsson - LAND
CC
Sent27.02.2024
Viðhengi
image001.png

Góðan daginn!

 

Matvælaráðuneytið hefur falið Landi og skógi að hefja endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi stuðningskerfa í landgræðslu og skógrækt.  Tilgangur þessa erindis nú er að kalla eftir ábendingum sem nýst geta við vinnuna við að móta tillögur að endurskoðuðu stuðningskerfi, en markmiðið er að  til verði tillaga að heildstæðu stuðningskerfi málaflokksins innan stofnunarinnar sem jafnframt styður við stefnu stjórnvalda á sviði loftslagsmála, verndunarlíffræðilegrar fjölbreytni og byggðamála.

 

Stuðningskerfin sem um ræðir eiga að efla þátttöku einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana í landgræðslu og skógrækt, meðal annars í samræmi við opinberar stefnur í umhverfismálum, loftslagsmálum, landbúnaði og atvinnumálum.

 

Landi og skógi er ætlað að skila tillögum um breytingar til ráðuneytisins í lok apríl 2024. Í framhaldinu er gert ráð fyrir að settar verði reglugerðir í samræmi við 8. gr. laga um landgræðslu nr. 155/2018 og 7. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019 ásamt því að reglugerð um landshlutaverkefni í skógrækt nr. 285/2015 verði endurskoðuð, sbr. IV. kafla laga um skóga og skógrækt.

 

Tillögurnar geta falið í sér endurskoðun að hluta eða öllu leyti á núverandi verkefnum og jafnvel leitt af sér ný verkefni sem snúa að nýtingu lands. Lögð er áhersla á að verkefni samræmist skipulagi sveitarfélaga og horft sé til vistfræðilegra, efnahagslegra og félagslegra sjónarmiða. Þá geta ábendingar og tillögur einnig snúið að framkvæmd verkefna, til dæmis stafrænu viðmóti, umsóknarferli, eftirliti og aðgengi að upplýsingum. Eftirfarandi er yfirlit yfir þau verkefni sem nú þegar eru starfrækt og fela í sér stuðning við umráðahafa lands:

  • Skógrækt á lögbýlum er lögbundið verkefni og með skilgreinda heimild í fjárlögum. Það er jafnframt stærsta stuðningsverkefni Lands og skógar með tæplega 700 samningsbundin býli . Styrkhlutfall er allt að 97% af skilgreindum kostnaði. Árlega eru gróðursettar um þrjár milljónir plantna í verkefninu, sem jafngildir því að flatarmál skóglendis aukist um það bil um 1.500 hektara á ári.
  • Bændur græða landið er með um 500 þátttakendur og hófst árið 1990. Þar er unnið að landgræðslu heimalanda. Styrkhlutfall er metið ríflega 50% af heildarkostnaði. Árlega er unnið með beinum hætti á um 4.000 hekturum lands, fyrst og fremst með styrkingu staðargróðurs.
  • Landbótasjóður var settur á laggirnar árið 2003 og styrkir umráðahafa lands til verndunar og endurheimtar vistkerfa auk þess að stöðva hnignun vegna jarðvegsrofs og gróðureyðingar. Sjóðurinn styrkir fyrst og fremst stærri verkefni. Á síðustu árum hafa um 90 verkefni verið styrkt og unnið var á tæplega 4.000 hekturum. Styrkhlutfall er á bilinu 60%-85%. Hæsta hlutfallið fæst þegar unnið er á friðuðu landi og verkefnið felur í sér fræðslu eða hefur samfélagsleg áhrif.
  • Endurheimt votlendis felur í sér stuðning til umráðhafa lands við endurheimt votlendis. Styrkir geta numið öllum útlögðum kostnaði við framkvæmd en einnig falist í ráðgjöf og skipulagningu sé um samstarfsverkefni að ræða. Verkefnið hófst formlega árið 2017 og síðan hafa tæplega 900 hektarar verið endurheimtir í 44 verkefnum.
  • Varnir gegn landbroti er lögbundið verkefni og með skilgreinda fjárheimild í fjárlögum. Að jafnaði eru  20 til 25 verkefni unnin árlega. Þar af eru um 40% þeirra framkvæmd af einkaaðilum sem hlotið hafa styrk. Önnur verkefni felast í viðhaldi varnargarða og bakkavarna á landi í eigu ríkisins.
  • Bonn ? Endurheimt birkivistkerfa hefur verið í gangi frá því að ríkið lýsti yfir þátttöku í Bonn-áskoruninni haustið 2021. Markmið verkefnisins er að leggja grunn að endurheimt birkivistkerfa á 3,5% af flatarmáli Íslands. Þátttökunálgun er lítt mótuð í verkefninu en landeigendur á skilgreindum svæðum hafa átt kost á stuðningi í formi trjáplantna.

 

Einnig leitar Land og skógur eftir viðhorfi sveitarfélaga til verkefna þar sem áætlað er að gróðursetja birkiplöntur vegna Bonn-áskorunarinnar. Ef unnið verður að verkefnum í þínu sveitarfélagi, óskar sveitarfélagið þá eftir umsókn um framkvæmdarleyfi, breytingu á aðalskipulagi eða annars konar tilkynningu sem verkefnið snertir? Gilda stærðarmörk um verkefni við endurheimt birkivistkerfa í þínu sveitarfélagi eða ákvæði um hvenær þau teljast tilkynningarskyld og/eða leyfisskyld?

 

Tillögur og ábendingar óskast sendar á gustav.magnus.asbjornsson@landogskogur.is fyrir 29. mars næstkomandi.

 

Nánari upplýsingar og aðstoð veita:

Hrefna Jóhannesdóttir, sviðstjóri ræktunar og nytja  - Hrefna.Johannesdottir@landogskogur.is

Gústav Magnús Ásbjörnsson, sviðstjóri endurheimtar vistkerfa  - gustav.magnus.asbjornsson@landogskogur.is

 

Kær kveðja f.h. Lands og skógar,

 

Gústav

 

 

 

A logo of a circle

Description automatically generated

Gústav Magnús Ásbjörnsson

Sviðsstjóri endurheimtar vistkerfa/Head of dep. Ecological restoration

Land og skógur / Land and Forest Iceland

Gunnarsholt, 851 Hella - Iceland

gustav.magnus.asbjornsson@landogskogur.is - landogskogur.is

Sími / Tel (+354) 863-0127

 

Land og skógur er þekkingarstofnun á sviði gróður- og jarðvegsauðlinda og gegnir mikilvægu hlutverki við að bæta þessar auðlindir Íslands og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra. Land og skógur sinnir vernd og endurheimt vistkerfa og ræktun skóga.